Lög, reglur, siðareglur og viðteknar venjur

Viðmið um heiðarleg vinnubrögð í námi byggjast á óskrifuðum, almennum leikreglum og skírskotun til siðferðisvitundar hvers og eins. Jafnframt er í lögum og reglum sem um háskólann gilda mælt fyrir um skyldur og ábyrgð nemenda og formleg viðurlög við misferli sem upp kann að koma. 

19. gr. laga um opinbera háskóla fjallar um réttindi og skyldur nemenda. Þar segir m.a. í 2. og 3. málsgrein:

Nemandi skal forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða í framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla.

Gerist nemandi sekur um háttsemi skv. 2. mgr. eða sem er andstæð lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skal forseti þess skóla þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots getur forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta.

Þessi ákvæði eru nánar útfærð í 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Þar er því lýst hvernig brugðist skal við ef nemandi gerist brotlegur við lög eða reglur skólans. Málsmeðferð er rakin og viðurlög tíunduð. M.a. segir: „Að teknu tilliti til alvarleika brots getur forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu.“

Um meðferð heimilda í ritsmíðum og verkefnavinnu er fjallað í 4. mgr. 54. gr. reglna nr. 569/2009: „Stúdentum er algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.“ Ákvæði um háttsemi og vinnubrögð í prófum er svo að finna í 2. mgr. 58. gr.:

Stúdentum, sem í prófi eru, er óheimilt að aðstoða aðra prófmenn við prófúrlausn eða leita aðstoðar annarra. Skrásettum stúdent, sem ekki er í prófi, er einnig óheimilt að veita slíka aðstoð. Prófmönnum er óheimilt að tala saman og þeir mega ekki hafa aðrar bækur, gögn eða tæki með sér en þau, sem kennari heimilar nema sérstaklega sé kveðið á um annað í reglum deilda. Sama gildir um aðra verkefnavinnu stúdenta nema kennari ákveði annað. Brot gegn ákvæðum þessum og öðrum prófreglum, sem háskólaráð setur, varða vísun úr prófi og eftir atvikum viðurlögum, samkvæmt 19. gr. laga um opinbera  háskóla.

Í 59. gr. reglnanna eru ákvæði um prófdómara, prófsýningar og rétt nemenda til að fá útskýringar á mati skriflegrar úrlausnar. Hlutverk prófdómara við mat úrlausna er útskýrt í 60. gr.

Um notkun gervigreindar í námi, prófum, ritgerðasmíð og verkefnavinnu er fjallað hér

Í Siðareglum Háskóla Íslands er m.a. fjallað um fagleg og vönduð vinnubrögð við öflun og miðlun þekkingar. Siðareglurnar eru viðmið um breytni allra háskólaborgara, nemenda og starfsfólks, innan sem utan skólans. Viðbrögðum við háttsemi sem kann að striða gegn siðareglunum er lýst í 7. kafla þeirra.

Sérstakar verklagsreglur, síðast endurskoðaðar og samþykktar í háskólaráði 10. apríl 2014, fjalla um góða starfshætti við kennslu og próf í Háskóla Íslands.

Auk þess sem að ofan greinir eru kröfur um ráðvendni í námi gjarnan ítrekaðar og undirstrikaðar í reglum settum af einstökum deildum og námsbrautum.

Ábending: Í háskólanum er starfrækt ritver, þar sem öllum nemendum skólans er velkomið að leita ráða og leiðbeininga um hvaðeina sem lýtur að ritsmíðum og vinnubrögðum við fræðileg skrif. Á vefsíðu ritversins er m.a. að finna gagnlegar upplýsingar um meðferð, skráningu og vísun til heilmilda. Enn fremur leiðbeiningar og heilræði um ritun og frágang lokaverkefna.

 Sama síða á öðrum árum