Ritstuldarvarnir með Turnitin-forritinu

„Frumleikaskönnun“ texta með Turnitin

turnitin logoHáskólar á Íslandi hafa sameinast um notkun á Turnitin-forritinu (https://www.turnitin.com) til varnar gegn ritstuldi. Í Turnitin er hægt að hlaða inn skjali með texta, t.d. skilaverkefni nemanda eða ritgerð. Forritið ber texta skjalsins saman við mikið safn heimilda, en hægt er að skilgreina nánar hvers konar heimildir borið er saman við í hverju tilviki. Niðurstaða samanburðarins sýnir glögglega hvort rétt er farið með heimildir og tilvísanir í þær, eða hvort um er að ræða óeðlilega mikla samsvörun við verk annarra höfunda.

Deildir Háskólans hafa flestar tekið Turnitin í þjónustu sína, í því skyni að kennarar geti gengið úr skugga um frumleika texta og rétta heimildanotkun í verkefnum og ritsmíðum sem nemendur leggja fram. Hægt er að setja skil á verkefnum og ritgerðum upp þannig að nemendur geti sjálfir hlaðið verkefnum sínum eða einstökum hlutum þeirra beint inn í gagnagrunn Turnitin og á þann hátt athugað hvort textinn sé í lagi með tilliti til heimildanotkunar. Í námsumsjónarkerfinu Canvas er hægt að láta verkefnaskil nemenda fara sjálfkrafa í gegnum Turnitin.

Þegar nemendur leggja fram lokaverkefni er í sumum tilvikum beinlínis gerð krafa um að þeir skili jafnframt staðfestingu á lokaskilum í gegnum Turnitin, ásamt niðurstöðum frumleikaskýrslu eða „originality report“. Nemendur sem vinna að rannsóknarverkefnum geta með þessu móti sjálfir tryggt að niðurstöður þeirra og efnistök séu þannig að ekkert geti þar flokkast undir ritstuld.

Leiðbeiningar um ritstuldarvarnir með Turnitin Feedback Studio

Á vefnum turnitin.hi.is er að finna tengla á leiðbeiningar um Turnitin Feedback Studio eftir ýmsum aðgangsleiðum.

Hvað er ritstuldur?

Ritstuldur (e. plagiarism) felst meðal annars í eftirtöldu:*

  • að leggja fram verk annars óbreytt í eigin nafni,
  • að taka beint upp eftir öðrum texta eða hugmyndir án þess að geta heimildar,
  • að sleppa tilvitnunarmerkjum þegar um beina tilvitnun er að ræða,
  • að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar um heimildir,
  • að taka efnislega upp texta annars höfundar en umorða hann að einhverju leyti, án þess að geta heimildar,
  • að leggja fram sem eigið verk texta sem að megninu til er fenginn „að láni“ frá öðrum, hvort sem heimilda er getið eða ekki,
  • að þýða texta annars höfundar orðrétt yfir á íslensku án þess að nota beina tilvitnun,
  • að endurnýta í einhverjum mæli efni úr eigin verki án þess að geta heimildar.

*M.a. byggt á skilgreiningum sem er að finna á vefsvæðinu plagiarism.org og síðunni The Plagiarism Spectrum á vefsetri Turnitin, https://www.turnitin.com.

Heiðarleiki og ráðvendni í námi

Áhersla á heiðarleg og vönduð vinnubrögð í öllu starfi skólans er meðal grunngilda Háskóla Íslands. Innleiðingin á Turnitin til eflingar ritstuldarvörnum í skólanum er í samræmi við þessa áherslu og liður í því að tryggja heiðarleg vinnubrögð og ráðvendni í námi.

 Sama síða á öðrum árum