(1) Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár Háskóla Íslands 2024–2025

(Samþykktir á fundi háskólaráðs 11. janúar 2024.)

Kennsluskráin er unnin samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í byrjun janúar 2024 um kennslu, námsframboð og annað er varðar starfrækslu Háskóla Íslands háskólaárið 2024–2025. Kennsluskráin er því birt með fyrirvara um mögulegar breytingar. Ráðgerð birting er um miðjan febrúar 2024.

Einstök fræðasvið háskólans samþykkja kennsluskrána með fyrirvara um eftirtalin atriði:

  • Nægilegar fjárveitingar.
  • Fáanlegt kennaralið.
  • Lágmarksfjölda stúdenta í einstökum námskeiðum.
  • Nægilegt húsnæði.
  • Aðgengi að starfs- og vettvangsþjálfun.
  • Breytingar sem síðar kunna að reynast nauðsynlegar.

Ef kennsluskrá og námsáætlun kennara ber ekki saman þá gildir námsáætlun kennarans, enda hafi hún verið kynnt stúdentum í upphafi námskeiðs, sbr. 3. mgr. 23. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Við útgáfu kennsluskrár 2024–2025 eru auk þess settir eftirtaldir fyrirvarar:

  • Vera kann að beita þurfi fjöldatakmörkun eða annarri aðgangstakmörkun í fleiri greinum háskólaárið 2024–2025 en ákvörðun liggur fyrir um við útgáfu þessarar kennsluskrár.
  • Fyrirvarar um einstök önnur atriði er snerta inntöku nemenda og skipulag kennslu og náms geta verið í köflum fræðasviða og deilda.

(2) Inntaka nýnema, aðhald með skráningum, eftirlit með námsframvindu, skrásetningargjald o.fl. háskólaárið 2024–2025

(Samþykkt í háskólaráði 11. janúar 2024.)

Á háskólaárinu verður aðhaldi beitt sem fyrr við skráningu nemenda í námskeið og náið fylgst með því hvernig virkni í námi þróast. Skrásetningargjald háskólaársins 2024–2025 er kr. 75.000 skv. fjárlögum fyrir árið 2024, sbr. einnig 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Nánar er kveðið á um skrásetningargjald og önnur gjöld í sérstökum reglum sem háskólaráð setur, sbr. 3. og 4. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla. Sjá reglur nr. 244/2014 um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl. og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds.

Nánari aðgerðir í þessu skyni:

  • Ekki verða veittar neinar undanþágur frá skráningartímabili árlegrar skráningar 7. mars–14. apríl 2024 í námskeið á haust- og vormisseri 2024–2025.
  • Ekki verður tekið við umsóknum nýnema sem berast eftir 5. júní 2024.
  • Skrásetningargjaldið er ekki endurkræft.
  • Forseti fræðasviðs ákveður, að höfðu samráði við sviðsstjóra kennslusviðs, hvort einstakar deildir viðkomandi fræðasviðs taki við umsóknum um undanþágur frá inntökuskilyrðum, sbr. 6. mgr. 47. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Ákvörðun um það skal liggja fyrir við útgáfu kennsluskrár 2024–2025 og er þá tekið við umsóknum um undanþágur frá inntökuskilyrðum vegna náms í viðkomandi deildum til 5. júní 2024.
  • Hvert fræðasvið fyrir sig ákveður hvort einstakar deildir þess taka inn nemendur í janúar 2025.
  • Nemendur, sem nýskráðir eru til náms á vormisseri 2025, geta ekki skipt um deild eða námsleið á því misseri.
 Sama síða á öðrum árum